NR. 31 ÞORLÁKUR

7.7% ALC./VOL.

SAISON BRETT

Þorlákur er blíður, belgískur sveitapiltur; mjúkur og hlýr líkt og akurmoldin, glaðvær sem grasspretta að vori og sætur sem nýklofinn kandís. Salt og pipar jarðar.

Þorlákur er af ætt saison/farmhouse-bjóra, sem er klassískur bjórstíll upprunninn í sveitum frönskumælandi hluta Belgíu. Bjórinn var iðulega bruggaður á bóndabæjum yfir vetrarmánuðina þegar hægja tók á bústörfum en drukkinn af búaliði við sumarstörf á ökrunum. Í dag eru saison-bjórar yfirleitt í kringum 7%, en líklegt er að þeir hafi í fyrstu ekki verið sterkari en 3,5% enda var hverjum vinnumanni úthlutað um 5 lítrum á dag.

Þorláki fellur ekki búverk úr hendi og ilmar af svita síns andlits. Hann er hæfilega humlaður og því dálítið beiskur og þurr, en að sama skapi ákaflega bragðmikill og svalandi. Brettanomyces-gerið framkallar dálítið fönkí bragð- og lyktartóna sem minna á gróðurmold og nýslegið gras, og í eftirbragði má greina piparkorn og kandís.